Mbappé skilinn eftir – í fótspor Neymar?

Kylian Mbappé sló í gegn í fyrra.
Kylian Mbappé sló í gegn í fyrra. AFP

Franska ungstirnið Kylian Mbappé sem sannarlega sló í gegn hjá Mónakó á síðasta tímabili er utan leikmannahópsins fyrir næsta leik liðsins gegn Metz í kvöld.

Öll helstu stórlið Evrópu hafa verið á eftir þessum 18 ára gamla framherja í sumar og Leonardo Jardim, stjóri Mónakó, segir að hann sé að reyna að vernda kappann með því að halda honum utan hóps nú. Hann hafði áður spilað tvo fyrstu leiki liðsins á tímabilinu.

„Þegar svona margir hlutir eru að gerast í kringum 18 ára gamlan strák, þá er það okkar hlutverk að vernda hann. Hann er ekki í sínu besta formi, enda ekki hægt að ætlast til þess af 18 ára unglingi,“ sagði Jardim.

París SG, sem á dögunum keypti Neymar frá Barcelona á metfé, er sagt næsti áfangastaður Mbappé. Jardim útskýrði svo stöðuna á blaðamannafundi.            

„Meira að segja þið blaðamenn – ef annað blað myndi á morgun bjóða ykkur samning þar sem þið fáið 15 sinnum meira borgað en nú, þá verður erfiðara fyrir ykkur að skrifa á núverandi lyklaborð,“ sagði Jardim.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert