Gríðarlegir yfirburðir

Cristiano Ronaldo og Lieke Martens voru sæl með verðlaunin.
Cristiano Ronaldo og Lieke Martens voru sæl með verðlaunin. AFP

Portúgalski framherjinn, Cristiano Ronaldo, leikmaður Evrópu- og Spánarmeistara Real Madrid, og Lieke Martens, einn nýkrýndra Evrópumeistara Hollands, voru í gær kjörin besta knattspyrnufólk Evrópu 2016-2017.

Þetta var í þriðja sinn sem Ronaldo er kjörinn besti leikmaður Evrópu en Martens er fyrsta hollenska konan sem verður fyrir valinu. Portúgalinn hlaut nafnbótina fyrst 2014 og aftur í fyrra.

Ronaldo hafði gífurlega yfirburði að þessu sinni; hlaut 482 stig, Lionel Messi frá Barcelona 141 og Gianluigi Buffon, markvörður Juventus, 109 stig. Ronaldo virtist varla trúa því hve yfirburðirnir voru miklir, þegar tölurnar voru lesnar upp fyrir hann og blaðamenn, sem tóku þátt í kjörinu, á fundi baksviðs. Var afar stoltur eins og nærri má geta.

Ronaldo fékk þá góðu spurningu á fundinum hvort hugsanlega væri ósanngjarnt gagnvart öðrum leikmönnum hve framherjar væru alltaf í sviðsljósinu og hrepptu oftast viðurkenningar sem þessa.

„Ég veit ekki hvort ósanngjarnt er rétt orðið,“ svaraði Portúgalinn og spurði svo á móti: „Ef þú ferð á völlinn, hvað viltu helst sjá?“

„Mörk,“ svaraði blaðamaðurinn.

„Einmitt. Það er alltaf mikil áskorun fyrir okkur framherjana að skora, þannig gleðjum við áhorfendur og hjálpum liðunum að vinna. Ég verð að verja mína stöðu og er mjög ánægður; haldið endilega áfram að kjósa mig!“ sagði Portúgalinn og hló dátt.

Greinin í heild sinni er í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert