Hann hefði fengið tiltal

Alfreð Finnbogason fagnar marki með Augsburg.
Alfreð Finnbogason fagnar marki með Augsburg. Ljósmynd/fcaugsburg.de

„Ég get ekki sagt að ég hafi farið með rosalega góða tilfinningu inn í þennan leik. Ég var slappur á miðvikudeginum og æfði eiginlega ekki neitt á fimmtudag og föstudag. Ég held að læknirinn hafi gefið mér öll leyfileg lyf fyrir þennan leik og ætli ég verði ekki að taka þau aftur fyrir næstu helgi,“ sagði Alfreð Finnbogason léttur í bragði, þegar Morgunblaðið heyrði í honum í gær.

Alfreð skoraði öll þrjú mörk Augsburg í 3:0-sigri á Köln í þýsku 1. deildinni í knattspyrnu um helgina, þrátt fyrir flensu eins og fyrr segir, og er markahæstur í deildinni með 4 mörk eftir þrjár umferðir. Þá var hann valinn leikmaður 3. umferðar af fótboltatímaritinu Kicker.

„Fyrstu tíu mínúturnar fannst mér ég vera svolítið steiktur bara, en svo var ég vakandi þegar færin komu og spilið gekk vel. Ég var svolítið orkulaus í seinni hálfleik en þjálfarinn tilkynnti mér að ég hefði hlaupið mest allra í leiknum, svo það kom skemmtilega á óvart. Þetta var bara mjög góður dagur,“ sagði Alfreð, sem var kominn með tvö mörk eftir rúmlega hálftíma leik en skoraði þriðja markið rétt fyrir leikslok. Markið kom þegar hann fylgdi á eftir stangarskoti Venesúelabúans Sergio Córdova, sem kaus að taka skot í stað þess að gefa á Alfreð í dauðafæri:

„Hann hefði alveg fengið vægt tiltal ef ég hefði ekki fengið boltann til mín eftir skotið. Það var flott að ná að klára þetta á síðustu mínútunni. Það er alltaf svolítið sérstakt að taka þrennu,“ sagði Alfreð, sem samkvæmt hefð fékk að taka boltann með sér heim eftir að hafa skorað þrennuna. Hann hefur nú skorað þrennu í efstu deild fjögurra landa; Þýskalands, Hollands, Svíþjóðar og Íslands, en á reyndar bara tvo „þrennubolta“ í sínu safni.

Sjá allt viðtalið við Alfreði íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert