Bæjarar fóru illa að ráði sínu

Arjen Robben er hér að koma Bayern í 2:0.
Arjen Robben er hér að koma Bayern í 2:0. AFP

Meistararnir í Bayern München misstu niður tveggja marka forskot þegar liðið tók á móti Wolfsburg í þýsku 1. deildinni í knattspyrnu í kvöld.

Bæjarar voru í góðum málum eftir fyrri hálfleikinn. Pólski framherjinn Robert Lewandowski kom sínum mönnum í 1:0 með marki úr vítaspyrnu á 33.mínútu og skoraði þar með sitt 7. mark í deildinni á tímabilinu. Hollendingurinn Arjen Robben bætti svo öðru marki við fyrir Bayern tíu mínútum síðar.

En gestirnir frá Wolfsburg voru ekki af baki dottnir. Maximilian Arnold minnkaði muninn á 56. mínútu og sjö mínútum fyrir leikslok jafnaði Daniel Didavi metin og þar við sat.

Dortmund og Bayern München eru efst og jöfn með 13 stig en Dortmund á leik til góða gegn Borussia Mönchengladbach á morgun. Wolfsburg er í 11. sætinu með 6 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert