Ólafur er mjög áhyggjufullur

Hjörtur Hermannsson, til vinstri.
Hjörtur Hermannsson, til vinstri. Ljósmynd/Brøndby

Hjörtur Hermannsson og félagar í Brøndby unnu dramatískan sigur á Hobro í dag í dönsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu þar sem sigurmarkið kom á lokamínútunni. Lokatölur urðu 2:1. Krísan heldur hins vegar áfram hjá Ólafi Kristjánssyni og Hannesi Þór Halldórssyni í Randers.

Hjörtur lék allan leikinn í stöðu miðvarðar hjá Brøndby sem hefur 18 stig í 2.-3. sæti deildarinnar ásamt erkifjendum liðsins í FC København.

Hannes Þór Halldórsson stóð allan tímanum í markinu hjá Randers sem tókst enn á ný ekki að vinna en liðið beið lægri hlut gegn OB, 3:1, fyrr í dag.

Randers hefur 7 stig og er í botnsæti deildarinnar en er skammt frá Hallgrími Jónassyni og félögum Í Lyngby sem hafa 9 stig í ásamt Helsingør í 12.-13. sæti. Hallgrímur var ekki í hóp hjá Lyngby í dag sem tapaði 3:1 gegn AaB á útivelli.

Ólafur var óánægður með sína menn í dag og sagði liðið einfaldlega hafa spilað illa.

„Þetta eru ansi fá stig eftir 10 leiki,“ sagði Ólafur við Jyllnands-Posten og sagði sína menn hafa spilað illa í dag eins og í nokkrum öðrum leikjum á leiktíðinni. Þó ekki í síðustu leikjum.

„Ég saknaði þess að sjá það yfirbragð sem hefur verið á okkur í síðustu leikjum. Okkur vantaði skerpu og í síðari hálfleik saknaði ég þess að sjá ekki lykilmenn draga vagninn,“ sagði Ólafur.

„Reynslumeiri leikmennirnir brugðust þeim yngri,“ sagði Ólafur við Bold.

„Ég er mjög áhyggjufullur yfir stöðu liðsins. Við höfum spilað illa og ekki safnað nægilega mörgum stigum,“ sagði Ólafur.

Ólafur Helgi Kristjánsson hefur um margt að hugsa þessa dagana.
Ólafur Helgi Kristjánsson hefur um margt að hugsa þessa dagana. Ljósmynd/www.randersfc.dk
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert