Svekkjandi hjá Liverpool – Kane með þrennu

Philippe Coutinho jafnar metin fyrir Liverpool í kvöld.
Philippe Coutinho jafnar metin fyrir Liverpool í kvöld. AFP

Liverpool náði aðeins í eitt stig gegn Spartak Moskvu þegar liðin áttust við í annarri umferð E-riðils Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu í kvöld. Liverpool óð í færum en varð að sætta sig við 1:1 jafntefli.

Liverpool hafði yfirburði í upphafi leiks en lenti undir á 23. mínútu. Brasilíumaðurinn Fernando kom þá Spartak yfir með glæsilegu marki, beint úr aukaspyrnu, þar sem hann skrúfaði boltann yfir vegginn. Landi hans Philippe Coutinho var hins vegar fljótur að jafna eftir góðan samleik við Sadio Mané, staðan 1:1 í hálfleik.

Liverpool sótti mun meira eftir hlé en inn vildi boltinn ekki. Tæpum 10 mínútum var bætt við venjulegan leiktíma vegna meiðsla en það dugði ekki Liverpool og niðurstaðan 1:1 jafntefli. Bæði lið hafa því tvö stig eftir fyrstu tvo leikina.

Í hinum leik riðilsins vann Sevilla öruggan sigur á Maribor, 3:0, þar sem Wissam Ben Yedder skoraði þrennu og er spænska liðið á toppi riðilsins með 4 stig eftir fyrstu tvo leikina.

Þrenna hjá Kane og sigur hjá Real

Harry Kane skoraði þrennu fyrir Tottenham sem átti ekki í vandræðum með APOEL í H-riðli. Kane hefur nú skorað fimm mörk í fyrstu tveimur leikjunum í Meistaradeildinni þetta tímabilið.

Í hinum leik riðilsins unnu svo Evrópumeistarar Real Madrid útisigur gegn Dortmund, 3:1, þar sem Cristiano Ronaldo skoraði tvö mörk eftir að Gareth Bale kom Real yfir með glæsimarki.

Manchester City marði sigur gegn Shakhtar, 1:0, í F-riðli þar sem Kevin De Bruyne skoraði sigurmarkið.

Öll úrslit kvöldsins má sjá hér að neðan.

E-riðill:
Sevilla – Maribor 3:0
(Ben Yedder 27., 38., 83.)
Spartak Moskva – Liverpool 1:1
(Fernando 23. - Coutinho 31.)

F-riðill:
Napoli – Feyenoord 3:1
(Insigne 7., Mertens 49., Callejón 70. - Amrabat 90.)
Manchester City – Shakhtar 1:0
(De Bruyne 48.)

G-riðill:
Besiktas – Leipzig 2:0
(Babel 11., Talisca 42.)
Mónakó – Porto 0:3
(Aboubakar 31., 69., Layún 89.)

H-riðill:
Dortmund – Real Madrid 1:3
(Aubameyang 54. - Bale 18., Ronaldo 49., 79.)
APOEL – Tottenham 0:3
(Kane 39., 62., 67.)

Spartak Moskva 1:1 Liverpool opna loka
90. mín. Daniel Sturridge (Liverpool) á skot framhjá Dauðafæri!!! Henderson lyftir boltanum inn á teiginn, Sturridge er ekki rangstæður en þrumar yfir einn á markteig.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert