Tuttugu berjast enn um að fylgja Íslandi á HM

Nú eru 23 þjóðir búnar að tryggja sér sæti á HM karla í knattspyrnu í Rússlandi, og 20 þjóðir berjast um síðustu 9 sætin sem í boði eru. Ef úrslit leikja færu á besta veg fyrir Ísland gæti liðið komist upp í 2. styrkleikaflokk áður en dregið verður í riðla á HM þann 1. desember, en það er eins og komið hefur fram afar ólíklegt.

Ísland yrði aðeins í 2. flokki ef Perú tapaði umspilinu við Nýja-Sjáland og tvö af þeim Sviss, Ítalíu, Króatíu og Danmörku töpuðu sínum umspilseinvígum í nóvember við Norður-Írland, Svíþjóð, Írland og Grikkland. Nú eða að þrjú þeirra (Sviss, Ítalía, Króatía, Danmörk) töpuðu sínum einvígum, ef Perú ynni Nýja-Sjáland.

Við röðun í styrkleikaflokka er nefnilega notast við næstu útgáfu af styrkleikalista FIFA, þar sem Perú, Sviss, Ítalía, Króatía og Danmörk verða víst fyrir ofan Ísland. Listinn kemur út á mánudag, en röðun á listanum hefur þegar verið áætluð þar sem landsleikjatörninni er lokið.

Útlit er því fyrir að Ísland verði í 3. styrkleikaflokki ásamt Íran, Egyptalandi og fimm öðrum löndum. Fyrir liggur hvaða átta þjóðir verða í efsta styrkleikaflokki, og að sterk lönd á borð við Spán og Úrúgvæ verða að gera sér að góðu að vera í 2. flokki. Meðfylgjandi mynd sýnir hvaða þjóðir eru komnar á HM, hverjar geta komist þangað, og í hvaða styrkleikaflokki liðin verða í þeim tilvikum sem það liggur fyrir.

Leiðrétting: Upphaflega var sagt að til að Ísland yrði í 2. styrkleikaflokki yrði að treysta á að fjögur lið úr hópi Perú, Sviss, Ítalíu, Króatíu og Danmörku töpuðu sínum umspilseinvígum, en hið rétta er að þrjú þeirra þyrftu að tapa sínum einvígum. Beðist er velvirðingar á mistökunum.

Sjáðu greinina í heild sinni í íþróttablaði Morgunblaðsinsí dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert