Íslendingar vekja hrifningu

Gianni Infantino er forseti FIFA.
Gianni Infantino er forseti FIFA. AFP

„Við hlökkum mjög til að fá Ísland og hina frábæru stuðningsmenn liðsins í heimsmeistarakeppnina í Rússlandi árið 2018. Öll munum við eftir því magnaða andrúmslofti sem skapaðist í kringum leiki Íslands í Evrópukeppninni 2016,“ sagði Gianni Infantino, forseti Alþjóða knattspyrnusambandsins, FIFA, þegar Morgunblaðið sagðist vilja gefa lesendum sínum tækifæri til að heyra viðbrögð æðsta manns í knattspyrnuheiminum við nýjasta afreki karlalandsliðsins í knattspyrnu.

Eins og fram hefur komið er Ísland fámennasta þjóð sem unnið hefur sér inn keppnisrétt í lokakeppni HM karla í knattspyrnu en metið var áður í eigu Trínidad og Tóbagó.

„Ógleymanlegar tilfinningar og sönn ást á stórkostlegri íþrótt“

Infantino segist hafa veitt því athygli hversu mikla ástríðu Íslendingar hafi fyrir fótbolta og velgengni landsliðsins sé falleg saga.

„Þessi undankeppni sýnir enn einu sinni hversu fallegar sögur verða til í fótboltanum. Hin mikla vinna sem innt hefur verið af hendi á Íslandi síðustu árin skilar loksins þessum úrslitum. Íslenska fótboltaævintýrið er orðið falleg staðreynd. En mig langar einnig að nefna ástríðuna sem bæði leikmenn Íslands og stuðningsmenn hafa því hún sýnir okkur öllum hvað fótboltinn getur verið: Ógleymanlegar tilfinningar og sönn ást á þessari stórkostlegu íþrótt. Við hlökkum til leikja Íslendinga í Rússlandi,“ sagði Infantino við Morgunblaðið.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert