Sigur Liverpool gegn KR ekki lengur met

Leikmenn LIverpool fagna marki Roberto Firmino gegn Maribor í gærkvöldi.
Leikmenn LIverpool fagna marki Roberto Firmino gegn Maribor í gærkvöldi. AFP

Tottenham tók stórt skref í átt að 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu í gærkvöld þegar liðið sótti stig á heimavöll Evrópumeistaranna, Real Madrid. Liðin gerðu 1:1-jafntefli þar sem Cristiano Ronaldo jafnaði metin úr vítaspyrnu í fyrri hálfleik eftir að Raphaël Varane skoraði sjálfsmark þar sem hann reyndi að verjast Harry Kane.

Í sama riðli, H-riðlinum, tókst APOEL frá Kýpur að gera 1:1-jafntefli við Dortmund. Þessi lið eru því sex stigum á eftir Tottenham og Real þegar riðlakeppnin er hálfnuð. Tottenham á eftir heimaleik við APOEL í lokaumferðinni og góðar líkur eru á að það myndi duga liðinu að vinna þann leik til að komast áfram í keppninni.

Staða Manchester City er einnig afar vænleg á toppi F-riðils eftir að liðið vann Napoli 2:1 á heimavelli í gær. City-menn hafa nú unnið tíu leiki í röð, ef horft er til allra keppna, og geta tryggt sér sæti í 16-liða úrslitum með öðrum sigri á Napoli á Ítalíu í næstu umferð.

„Þetta var fullkomið,“ sagði Pep Guardiola, stjóri City. „Ef við spilum ekki vel gegn þessu liði þá er ómögulegt að vinna það. Níu stig eftir þrjá leiki er gott en við erum ekki búnir. Við getum ekki slakað á. Við þurfum einn sigur í viðbót til að komast áfram en við viljum líka enda efstir í riðlinum,“ sagði Guardiola.

Shaktar Donetsk vann Feyenoord 2:1 á útivelli í sama riðli og er næst á eftir City í 2. sæti með sex stig.

Lífsnauðsynlegur sigur Liverpool

Liverpool setti met í gær þegar liðið gjörsigraði Maribor á útivelli í­ Slóvení­u, 7:0. þetta er stærsti útisigur ensks liðs í­ 62 ára sögu keppni bestu liða Evrópu. Þetta er sömuleiðis einn af þremur stærstu útisigrinum frá því að nafni keppninnar var breytt í­ âMeistaradeildina árið 1992.

Síðast en ekki síst er þetta auðvitað stærsti útisigur Liverpool í Evrópuleik, en áður hafði liðið mest unnið 5:0-sigur á útivelli, meðal annars gegn KR árið 1964.

Sigurinn var hins vegar fyrst og fremst lífsnauðsynlegur fyrir Liverpool sem komst með honum naumlega upp fyrir Spartak Moskvu og Sevilla, í harðri baráttu þessara þriggja liða í E-riðli um tvö sæti í 16-liða úrslitunum. Spartak skellti Sevilla með stórsigri í Moskvu, 5:1, í gær.

Tyrkjanum Cenk Tosun tókst ekki að skora gegn Íslandi í undankeppni HM en hann gerði bæði mörk Besiktas þegar liðið vann frábæran 2:1-útisigur á Mónakó í G-riðli. Besiktas er því á toppi riðilsins með fullt hús stiga en Mónakó á botninum, og með sigri á heimavelli í seinni leik liðanna í næstu umferð er Besiktas komið áfram. RB Leipzig er í 2. sæti riðilsins með 4 stig eftir 3:2-sigur á Porto.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert