Mér finnst ég eiga skilið að fá fleiri tækifæri

Birkir Bjarnason.
Birkir Bjarnason. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég er náttúrulega ekki ánægður. Ég vil vera að spila meira og finnst ég eiga skilið fleiri tækifæri. Svona er þetta samt og ég verð bara að halda áfram,“ segir Birkir Bjarnason, landsliðsmaður í knattspyrnu, sem hefur lítið sem ekkert fengið að spreyta sig í liði Aston Villa í ensku B-deildinni síðustu vikur og mánuði.

Birkir átti frábæran leik fyrir Ísland í 3:0-útisigrinum á Tyrklandi í undankeppni HM í október, og var að vanda einnig í liðinu sem vann Kósóvó í kjölfarið og tryggði Íslandi HM-sæti í fyrsta sinn. Eftir að hafa glaðst og fagnað með félögum sínum í landsliðinu og þeim fjölmörgu stuðningsmönnum sem hylltu liðið á fallegri stundu á Ingólfstorgi fyrir tæpum mánuði, hefur erfiður „hversdagsleiki“ tekið við hjá Akureyringnum. Ekki sér fyrir endann á þeirri stöðu.

Birkir hefur samtals leikið fjórar mínútur fyrir Villa í síðustu fimm leikjum liðsins. Liðið hefur fengið 10 stig úr þessum leikjum og er í fínum málum undir stjórn Steve Bruce í 5. sæti deildarinnar með 26 stig, sex stigum frá toppnum.

„Jú, jú, við höfum verið að vinna mikið af leikjum. Þess vegna getur maður alveg skilið að maður fái ekki endilega að byrja leikina, en maður myndi vilja fá fleiri tækifæri, þó að það væri bara sem varamaður af bekknum. Þetta er svekkjandi, þegar manni gengur svona vel með landsliðinu, að fá svona lítinn séns með félagsliðinu. Þetta er bæði skrýtið og leiðinlegt,“ segir Birkir, en Morgunblaðið sló á þráðinn til hans í gær.

Nánar er rætt við Birki í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert