Buffon missir af metinu

Gianluigi Buffon í leiknum í kvöld.
Gianluigi Buffon í leiknum í kvöld. AFP

Gianluigi Buffon nær ekki að setja met á HM í Rússlandi næsta sumar þar sem Ítalir féllu úr keppni í kvöld gegn Svíum í umspilinu. 

Buffon hefur fimm sinnum tekið þátt í lokakeppni HM með Ítalíu: 1998, 2002, 2006, 2010 og 2014. Hann kom ekki við sögu árið 1998 en var aðalmarkvörður Ítala í hinum fjórum keppnunum.

Hann hefði væntanlega bætt sjöttu keppninni við í Rússlandi á næsta ári enda ennþá aðalmarkvörður ítalska landsliðsins. Með því hefði hann sett met á HM því enginn hefur oftar en fimm sinnum verið í leikmannahópi liða í lokakeppni HM karla. 

Metið setið Antonio Carbajal frá Mexíkó í Englandi árið 1966. Hann var einnig með 1950, 1954, 1958 og 1962.

(Vestur) Þjóðverjinn Lothar Matthäus jafnaði metið 1998 en hann lék einnig 1982, 1986, 1990 og 1994. 

Buffon lýsti því yfir í kvöld að landsliðsferli hans væri lokið. 

mbl.is