Saka mótherja um njósnir í umspili HM

Brayan Beckeles og Aziz Behich eigast við í fyrri leik …
Brayan Beckeles og Aziz Behich eigast við í fyrri leik Hondúras og Ástralíu. AFP

Knattspyrnusamband Hondúras er allt annað en sátt við landslið Ástralíu í knattspyrnu, en þjóðirnar eigast við í umspili um sæti á heimsmeistaramótinu í Rússlandi næsta sumar.

Fyrri viðureign liðanna á föstudag endaði með markalausu jafntefli í Hondúras, en heimamenn saka Ástrala um að njósna um æfingu sína með dróna. Þeir birta meðal annars myndskeið þess efnis til sönnunar.

„Þetta er vandræðalegt fyrir svo þróaða þjóð. Þetta eru njósnir og tekur allan heiðarleika út úr spilinu,“ sagði Jorge Luis Pinto, landsliðsþjálfari Hondúras, um málið, en þjóðirnar mætast á ný á morgun í Ástralíu þar sem allt er undir.

Ástralska knattspyrnusambandið hefur neitað ásökunum um málið, en knattspyrnusamband Hondúras birti meðfylgjandi myndskeið.


 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert