Sögulegur árangur Norðurlanda fyrir HM

Svíar komust á HM í gærkvöldi og Danir í kvöld.
Svíar komust á HM í gærkvöldi og Danir í kvöld. AFP

Eftir að Danir tryggðu sér í kvöld sæti á heimsmeistaramótinu í Rússlandi er ljóst að Norðurlandaþjóðirnar hafa aldrei verið fleiri á lokamóti HM í knattspyrnu en næsta sumar.

Ísland, Svíþjóð og Danmörk verða öll með á HM og hafa þrjár Norðurlandaþjóðir aldrei tekið þátt á sama lokamótinu. Ísland er hins vegar eina þjóðin sem komst beint á HM með sigri í sínum undanriðli, en Svíar slógu Ítali út í umspili og Danir gerðu það sama gegn Írum.

Svíar hafa oftast þessara þjóða tekið þátt, en þeir voru með 1934, 1938, 1950, 1958, 1970, 1974, 1978, 1990, 1994, 2002 og 2006 og eru því á leið á sitt 12. HM.

Danir eru á leið á sitt fimmta heimsmeistaramót eftir að hafa verið með árin 1986, 1998, 2002 og 2010.

Norðmenn hafa þrisvar komist á HM, árin 1938, 1994 og 1998 en Finnar, Færeyingar og Grænlendingar hafa aldrei komist á HM eins og raunin var áður með Íslendingar sem taka sem kunnugt er þátt í fyrsta sinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert