Eru Börsungar að safna liði?

Antoine Griezmann
Antoine Griezmann AFP

Fjölmiðlar í Katalóníu telja nú að Barcelona sé að krækja í franska sóknarmanninn Antoine Griezmann. Er talið að félagið ætli sér að ná bæði Frakkanum og Brasilíumanninum Philippe Coutinho. 

Áhugi Manchester United á Griezmann hefur ekki farið framhjá knattspyrnuunnendum en enska félagið vildi alla vega næla í Frakkann síðasta sumar en hann hélt kyrru fyrir hjá Atletico Madrid. 

Blaðið Mundo Deportivo segir hafa nokkrar heimildir fyrir því að Griezmann hafi gefið í skyn að hann væri áhugamaður um að spila fyrir Barcelona og eru með málið á forsíðu. 

Fjölmiðlar í Katalóníu telja þó að Barca ætli sér ekki að fá Frakkann fyrr en næsta sumar. United gæti því haft svigrúm til að næla í Frakkann í janúar. En ekki er ljóst hversu mikill áhuginn er nú þar sem frá Spáni berast einnig fréttir um að United gæti hugsað sér að kaupa Gareth Bale frá Real Madrid. 

Mundo Deportivo telur einnig að Barcelona vilji kaupa Coutinho frá Liverpool í janúar en það gekk ekki upp síðsumars. Kaupverðið þyrfti þó að vera mjög hátt miðað við tilboðið sem Liverpool hafnaði í ágúst. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert