Perú náði síðasta HM-sætinu

Raul Ruidiaz, Jefferson Farfan og Christian Cueva fagna HM-sætinu í …
Raul Ruidiaz, Jefferson Farfan og Christian Cueva fagna HM-sætinu í Lima í nótt. AFP

Perú náði í nótt síðasta sætinu í lokakeppni HM karla í knattspyrnu í Rússlandi 2018 með því að leggja Nýja-Sjáland að velli í umspilinu. 

Um var að ræða síðari viðureign þjóðanna og hafði Perú betur, 2:0, en fyrri leiknum í Nýja-Sjálandi lauk með markalausu jafntefli. 

Gamla kempan og fyrirliðinn Jefferson Farfan skoraði fyrra markið á 28. mínútu en hann gerði garðinn frægan með PSV Eindhoven á árum áður. Christian Guillermo Ramos gerði síðara markið á 65. mínútu. 

Perú hafnaði í 5. sæti í hinum sterka Suður-Ameríkuriðli og fór af þeim sökum í umspil en fjögur efstu liðin fóru beint inn á HM. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert