Lykilmenn í liði Björns í agabann

Björn Daníel Sverrisson.
Björn Daníel Sverrisson. Heimasíða AGF

Eitthvert vesen hefur verið á liðsfélögum knattspyrnumannsins Björns Daníels Sverrissonar hjá danska B-deildarliðinu Vejle en þrír leikmenn liðsins verða ekki í leikmannahópnum gegn Fremad Amager á morgun.

„Við erum með nokkrar reglur sem allir eiga að fylgja. Ein af þeim er að liðið gangi fyrir og það hafa þessir þrír ekki gert,“ sagði ítalski stjórinn Adolfo Sormani en það eru leikmennirnir Dominic Vinicius, Imed Louati og Allan Sousa sem eru sökudólgarnir.

Leikmennirnir eru liðinu, sem er í toppsæti dönsku B-deildarinnar, afar mikilvægir en þeir hafa skorað 19 mörk af þeim 28 mörkum sem liðið hefur skorað í deildinni.

„Ég er auðvitað mjög leiður yfir því að grípa þurfi til þessara ráðstafana en það var ekkert annað í stöðunni,“ sagði Ítalinn en leikmennirnir munu þess í stað vera á æfingum um helgina.

Eftir að hafa þurft að þola meiri bekkjarsetu en venjulega á tímabilinu hefur Björn Daníel byrjað síðustu þrjá leiki liðsins og ljóst er að meira mun mæða á kappanum gegn Kaupmannahafnarliðinu á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert