Þrjú Íslendingalið í umspilssæti

Hörður Björgvin Magnússon í leik með íslenska karlalandsliðinu í knattspyrnu.
Hörður Björgvin Magnússon í leik með íslenska karlalandsliðinu í knattspyrnu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hörður Björgvin Magnússon lék allan leikinn í stöðu vinstri bakvarðar hjá Bristol City sem gerði markalaust jafntefli á móti Sheffield Wednesday. Bristol City er í fjörða sæti deildarinnar með 31 stig eftir þetta jafntefli, en liðið er sjö stigum frá toppliði deildarinnar, Wolves, og sex stigum á undan Ipswich Town og Derby County sem verma sætin á eftir þeim sætum sem tryggja sæti í umspili um í efstu deild á næsta keppnistímabili.   

Aron Einar Gunnarsson kom inná á 69. mínútu þegar Cardiff City lagði Brentford að velli með tveimur mörkum gegn engu. Cardiff City er í þriðja sæti deildarinnar með 34 stig eftir þennan sigur, en liðið er tveimur stigum á eftir Sheffield United sem er sæti ofar og fjórum stigum á eftir Wolves sem trónir á toppi deildarinnar. 

Birkir Bjarnason var skipt inná undir lok leiksins í 2:1-sigri Aston Villa gegn QPR. Aston Villa komst upp í fimmta sæti deildarinnar með þessum sigri, en liðið hefur 29 stig og hefur fjögurra stiga forskot á Ipswich Town og Derby County sem eru í sætunum fyrir neðan þau sæti sem veita þátttökurétt í umspili um laust sæti efstu deild á næstu leiktíð. 

Jóni Daða Böðvarssyni tókst ekki að breyta gangi mála eftir að hann kom inná sem varamaður fyrir Reading á 81. mínútu þegar liðið laut í lægra haldi, 2:0, fyrir Wolves. Axel Óskar Andrésson var ekki í leikmannahópi Reanding að þessu sinni. Reading er í 19. sæti deildarinnar með 18 stig og er fimm stigum frá fallsæti eins og sakir standa. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert