Eyðileggur lyfjamál HM fyrir Rússum?

Rússar fagna marki í vináttulandsleik gegn Spáni á dögunum.
Rússar fagna marki í vináttulandsleik gegn Spáni á dögunum. AFP

Alþjóða knattspyrnusambandið, FIFA, reynir þessa dagana að fá í hendurnar nánari upplýsingar  um þátt rússneskra knattspyrnumanna í lyfjahneykslinu sem hefur skekið rússneska íþróttaheiminn síðustu misserin, samkvæmt frétt enska blaðsins Mail on Sunday í dag.

Þetta gæti sett undirbúning Rússa fyrir lokakeppni heimsmeistaramóts karla sem þeir halda sjálfir næsta sumar gjörsamlega úr skorðum.

Grigorí Rodchenkov, fyrrverandi yfirmaður stofnunar sem sá um skipulagningu á lyfjanotkun íþróttafólks í Rússlandi, flúði til Bandaríkjanna og opinberaði gögn um lyfjaneysluna. Það leiddi til þess að fjöldi rússneskra íþróttamanna fékk ekki að taka þátt í Ólympíuleikunum í Ríó á síðasta ári og Rússar eiga í kjölfarið yfir höfði sér að fá ekki að taka þátt í vetrarólympíuleikunum í Suður-Kóreu síðar í vetur.

Richard McLaren, kanadískur saksóknari, hefur unnið úr gögnum sem Rodchenkov tók með sér vestur um haf og á þeim hefur m.a. alþjóðaólympíunefndin byggt aðgerðir sínar gagnvart rússnesku íþróttafólki. Fjölmargir Rússar hafa fengið lífstíðarbann út frá þessum gögnum og verið sviptir verðlaunum.

Mail on Sunday skýrir  frá því að í skýrslum McLarens sé að finna sannanir fyrir því að í það minnsta 34 rússneskir knattspyrnumenn hafi komið við sögu í lyfjahneykslinu, þar á meðal allur hópur Rússa sem tók þátt í HM í Brasilíu árið 2014. Leikmennirnir hafi ýmist fengið lyf, verið verndaðir frá lyfjaprófum eða þá að gögn um útkomu prófanna hafi verið falin.

Blaðið kveðst hafa fengið staðfestingu frá FIFA um að sambandið sé að reyna að koma á fundi með Rodchenkov með það fyrir augum að fá nánari staðfestingu á þætti knattspyrnumannanna rússnesku í lyfjahneykslinu.

Í greininni segir að fari svo að FIFA fái haldbærar upplýsingar um þátt rússnesku knattspyrnumannanna geti það nánast rústað undirbúningi rússneska landsliðsins fyrir HM á eigin heimavelli. Það muni þó aldrei hafa þær afleiðingar að Rússland missi keppnina frá sér.

Rodchenkov nýtur lögregluverndar í Bandaríkjunum þar sem óttast er að reynt verði að ráða hann af dögum. Rússar segja hann vera ómerkilegan lygara og Leonid Tjagachev, meðlimur í rússnesku ólympíunefndinni, sagði á föstudag að það ætti að taka hann af lífi. „Það ætti að skjóta hann fyrir þessar lygar, rétt eins og Stalín hefði gert,“ var haft eftir Tjagachev samkvæmt Mail on Sunday.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert