Verður Conte arftaki arftaka síns?

Antonio Conte.
Antonio Conte. AFP

Antonio Conte, knattspyrnustjóri Englandsmeistara Chelsea, er efstur á lista sem næsti landsliðsþjálfari Ítalíu í stað Giampiero Ventura sem rekinn var á dögunum eftir að ítalska landsliðið komst ekki í lokakeppni HM í fyrsta sinn síðan árið 1958.

Ventura tók einmitt við af Conte eftir að sá síðarnefndi hætti eftir EM í Frakklandi í fyrrasumar til þess að taka við Chelsea. Hann vann ensku úrvalsdeildina á sínu fyrsta tímabili en nú vill ítalska knattspyrnusambandið að hann komi aftur og verði arftaki arftaka síns.

Aðrir sem eru orðaðir við starfið er Massimiliano Allegri, stjóri Juventus, en hann hefur sjálfur lýst því yfir að hann vilji stýra landsliðinu einn daginn þó að hann hafi einnig sagt að hann sé ekki tilbúinn til þess á þessari stundu.

Roberto Mancini, stjóri Zenit frá Pétursborg, er einnig nefndur eins og Carlo Ancelotti sem er án starfs eftir að hafa verið rekinn frá Bayern München í haust.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert