Robben vill halda þeim gamla

Arjen Robben.
Arjen Robben. AFP

Arjen Robben, einn af lykilmönnum þýska meistaraliðsins Bayern München, vill að Jupp Heynckes haldi áfram þjálfun liðsins eftir þetta tímabil en Heynckes, sem er 72 ára gamall, tók við liði Bayern eftir að Carlo Ancelotti var rekinn frá félaginu í síðasta mánuði.

Ancelotti var látinn taka pokann eftir niðurlægjandi 3:0 ósigur gegn Paris SG í Meistaradeildinni og ákváðu forráðamenn Bayern að kalla Heynckes til en hann hefur fjórum sinnum áður stýrt þýska stórliðinu. Með gamla manninn í brúnni hefur Bayern München náð vopnum sínum. Liðið er taplaust undir hans stjórn, er með sex stiga forskot í toppsæti þýsku 1. deildarinnar og er komið í 16-liða úrslit Meistaradeildarinnar.

„Það yrði besta lausnin ef hann héldi áfram. Það er enginn betri þjálfari á markaðnum og ef þú telur að Jupp Heynckes sé rétti maðurinn til að taka annað ár þá þarftu að tala við hann,“ segir Robben í viðtali við þýska blaðið Bild.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert