Robben gæti hætt eftir tímabilið

Arjen Robben.
Arjen Robben. AFP

Hollenski knattspyrnumaðurinn Arjen Robben, leikmaður þýska meistaraliðsins Bayern München, gæti lagt skóna á hilluna eftir tímabilið.

„Framtíð mín er óráðin. Þetta gæti verið búið hjá mér eftir þetta tímabili en ég gæti líka reynt eitthvað annað eða tekið þrjú ár til viðbótar hjá Bayern. Það er allt mögulegt. Ég reyni að hafa gaman að fótboltanum og spila á hæsta stigi eins lengi og möguleiki er á en ég veit ekki hversu lengi það varir,“ segir Robben í samtali við þýska blaðið Kicker.

Robben, sem er 33 ára gamall, kom til Bayern München frá Real Madrid árið 2009 og hefur verið í stóru hlutverki með sigursælu liði Bæjara þar sem hann hefur unnið þýska meistaratitilinn sex sinnum, þýsku bikarkeppnina fjórum sinnum og Evrópumeistaratitilinn einu sinni. Hann lagði lagði landsliðsskóna á hilluna í síðasta mánuði en Robben lék 93 landsleiki og skoraði í þeim 37 mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert