„Ætla að líta í kringum mig“

Aron Sigurðarson í leik með Tromsø.
Aron Sigurðarson í leik með Tromsø. Ljósmynd/til.no

Aron Sigurðarson, leikmaður norska úrvalsdeildarliðsins Tromsø, segir að framtíð sín sé óviss en hann var að ljúka sínu öðru tímabili með norska liðinu.

„Ég ætla að líta í kringum mig og sjá hvernig málin þróast. Ég hef rætt við forráðamenn félagsins um mín mál þar sem ég tjáði þeim að ég verð að fá að spila. Það má því segja að staðan sé óviss hjá mér sem stendur,“ sagði Aron í samtali við mbl.is en hann á eitt ár eftir af samningi sínum við Tromsø.

Aron kom við sögu í 21 af 30 leikjum Tromsø á nýafstöðnu tímabili í deildinni. Hann var 18 sinnum í byrjunarliðinu og skoraði þrjú deildarmörk en hans hlutskipti síðustu vikurnar var töluverð bekkjarseta.

„Þegar nýi þjálfarinn tók við liðinu fékk ég mjög lítið að spila. Hann breytti um kerfi og spilaði með fimm manna vörn og enga kantmenn og þar að leiðandi fékk ég fá tækifæri,“ sagði Aron.

Aron er 24 ára gamall og lék með Fjölni áður en hann hélt út í atvinnumennskuna. Hann hefur spilað 5 leiki með A-landsliðinu og skorað í þeim 2 mörk en lék síðast með því í 1:0 sigri gegn Írum í Dublin í vináttuleik í mars á þessu ári þar sem hann lék fyrstu 65 mínútur leiksins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert