Nígeríumenn biðjast afsökunar

Shehu Abdullahi í leiknum gegn Alsír, sem hann mátti ekki …
Shehu Abdullahi í leiknum gegn Alsír, sem hann mátti ekki spila. AFP

Forseti nígeríska knattspyrnusambandsins, Amaju Melvin Pinnick, hefur beðist afsökunar á mistökunum sem leiddu til þess að Nígería tefldi fram ólöglegum leikmann í lokaumferð undankeppni heimsmeistaramóts karla, gegn Alsír.

Shehu Abdullahi átti að vera í leikbanni vegna tveggja gulra spjalda en hann spilaði leikinn sem endaði 1:1 en var úrskurðaður Nígeríu tapaður, 3:0. Það breytti þó engu, Nígeríumenn höfðu þegar tryggt sér sigur í sínum undanriðli og mæta Íslandi á HM í Rússlandi 22. júní 2018 í Volgograd.

Pinnick sagði á Twitter að í fyrsta lagi hefði Abdullahi fengið spjaldið í fyrsta leik forkeppninnar, gegn Swasílandi haustið 2016, og enginn hefði gert sér grein fyrir því að spjöld þaðan myndu fylgja leikmönnum yfir í sjálfa undankeppnina. Á leikskýrslum undankeppninnar hefði Abdullahi heldur ekki verið skráður á þann veg að hann væri með spjald á  bakinu, en hins vegar hefði slíkt verið skráð hjá nokkrum öðrum leikmönnum Nígeríu.

Síðan hefði FIFA sent tölvupóst til yfirmanns tæknimála hjá knattspyrnusambandinu, þess efnis að Abdullahi væri í leikbanni gegn Alsír. Viðkomandi yfirmaður hefði þá verið kominn á sjúkrahús, í lífshættu vegna hjartaáfalls. Tölvupóstur til hans hefði ekki verið sjálfkrafa áframsendur annað og því hefði enginn séð tilkynninguna. 

„Á leikdegi vissum við ekki af þessu, dómarar leiksins vissu ekki af þessu og mótherjar okkar vissu ekki af þessu. Þetta voru hrikaleg mistök og við hjá knattspyrnusambandinu biðjumst innilega afsökunar. Við þökkum guði að þetta skyldi ekki eyðileggja margra ára  vinnu fyrir okkur,“ sagði Pinnick enn fremur á Twitter.

Þrátt fyrir þennan stigamissi endaði Nígería með 13 stig í riðlinum, fimm stigum á undan Sambíu sem endaði í öðru sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert