Alfreð þriðji Íslendinga með þrennu í Þýskalandi

Alfreð Finnbogason – þrenna í dag.
Alfreð Finnbogason – þrenna í dag. AFP

Alfreð Finnbogason er einn þriggja Íslendinga í sögu þýsku 1. deildarinnar í knattspyrnu, Bundesligunnar, sem hafa skorað þrennu.

Alfreð tryggði Augsburg jafntefli, 3:3, gegn Freiburg á magnaðan hátt í dag, skoraði fyrst á fyrstu mínútu leiksins og svo tvö skallamörk í uppbótartímanum en lið hans hafði verið 1:3 undir lengi í seinni hálfleiknum.

Alfreð gerði einnig þrennu fyrir Augsburg í haust, í 3:0 sigri á Köln 9. september. Atli Eðvaldsson afrekaði þetta fyrstur og gerði gott betur því hann skoraði öll 5 mörk Fortuna Düsseldorf þegar liðið vann Eintracht Frankfurt, 5:1, þann 4. júní árið 1983.

Atli skoraði þá á 3., 9. og 36. mínútu og var því kominn með þrennuna fyrir hlé. Hann gerði fjórða markið á 53. mínútu og innsiglaði svo sigurinn úr vítaspyrnu á 82. mínútu þegar hann gerði sitt fimmta mark.

Atli skoraði 21 mark í deildinni tímabilið 1982-1983 og var næst markahæstur í deildinni, ásamt Karl Allgöwer hjá Stuttgart. Markakóngur varð Rudi Völler sem skoraði 23 mörk fyrir Werder Bremen. Fjórði var svo Karl-Heinz Rummenigge, markaskorarinn magnaði frá Bayern München, með 20 mörk.

Eyjólfur Sverrisson skoraði þrennu fyrir Stuttgart í 7:0 sigri á Dortmund í febrúar 1991.

Alfreð er nú kominn með 11 mörk fyrir Augsburg í vetur og er þriðji markahæstur í deildinni, á eftir Robert Lewandowski hjá Bayern, sem hefur gert 15 mörk, og Pierre Aubameyang sem hefur gert 12 fyrir Dortmund.

Hann er nú einu marki frá félagsmeti Augsburg í Bundesligunni en enginn leikmaður í sögu félagsins hefur gert meira en 12 mörk á einu tímabili.

Fréttin var uppfærð. Stuðst var upphaflega við lista yfir þrennur í Bundesligunni en á þann lista vantaði bæði þrennu Eyjólfs og þrennu Alfreðs frá því í september.

Atli Eðvaldsson fagnar hér einu af fimm mörkum sínum, sem …
Atli Eðvaldsson fagnar hér einu af fimm mörkum sínum, sem hann skoraði í hinum sögulega leik gegn Frankfurt. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert