Ekki amaleg jólagjöf

Alfreð Finnbogason fagnar einu af þremur mörkum sínum.
Alfreð Finnbogason fagnar einu af þremur mörkum sínum. Ljósmynd/Augsburg

 „Þetta var geggjað og ekki amaleg jólagjöf sem ég gaf sjálfum mér,“ sagði landsliðsmaðurinn Alfreð Finnbogason í samtali við Morgunblaðið í gær en Alfreð var hetja Augsburg sem gerði 3:3-jafntefli gegn Freiburg í þýsku 1. deildinni í knattspyrnu á laugardaginn.

Alfreð skoraði öll mörk Augsburg í leiknum; það fyrsta strax eftir 55 sekúndur og svo skoraði hann tvö skallamörk í uppbótartíma og tryggði sínum mönnum annað stigið í hreint ótrúlegum leik.

„Við byrjuðum leikinn af krafti en misstum síðan öll tök á honum og vorum skelfilegir lengst af seinni hálfleik. En lokakaflinn var magnaður og það var hrikalega sætt að jafna þetta undir lokin,“ sagði Alfreð.

Þetta var önnur þrenna Alfreðs á leiktíðinni og hann er þriðji markahæsti leikmaður deildarinnar á eftir Robert Lewandowski úr Bayern München, sem hefur skorað 15 mörk, og Pierre Aubameyang, sem hefur skorað 13 mörk fyrir Dortmund.

Alfreð hefur skorað þrennu í efstu deild á Íslandi, Svíþjóð, Hollandi og Þýskalandi og er nú einu marki frá félagsmeti Augsburg í Bundesligunni en enginn leikmaður í sögu félagsins hefur skorað meira en 12 mörk á einu tímabili.

Alfreð var á leið í flug til Dubai þar sem hann ætlar að dvelja yfir jólin með fjölskyldu sinni þegar Morgunblaðið náði tali af honum en vetrarhlé er skollið á í deildinni. Það er þó styttra en áður vegna HM en fyrsti leikur Augsburg eftir fríið er heimaleikur gegn Hamburg 13. janúar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert