Besta liðið sem aldrei vann HM?

Johan Neeskens er goðsögn í sparkheimum. Hann er orðinn 67 …
Johan Neeskens er goðsögn í sparkheimum. Hann er orðinn 67 ára gamall. Rax / Ragnar Axelsson

„Hugsanlega. Fólk naut þess alltént að horfa á okkur spila og núna, meira en fjörutíu árum síðar, muna margir eftir okkur. Það segir sína sögu. Það á kannski sérstaklega við um liðið 1974; tveir lykilmenn, Johan Cruyff og Willem van Hanegem, voru báðir hættir með landsliðinu 1978.“

Þannig svarar Johan Neeskens, einn af burðarásunum úr gullaldarliði Hollands á áttunda áratugnum, spurningu þess efnis hvort liðið hafi verið besta í sögunni sem aldrei vann HM. 

Neeskens var staddur hér á landi í vikunni og gaf sér tíma til að ræða um fótmenntir fyrr og nú, hugmyndafræði „alsparksins“, eða totaalvoetbal, sigra og ósigra.

Neeskens lék sinn fyrsta landsleik árið 1970 og þegar kom að HM í Vestur-Þýskalandi sumarið 1974 var hann orðinn einn af lykilmönnum liðsins. Þar varð hann næstmarkahæstur allra og kórónaði frábært mót með því að skora úr vítaspyrnu strax á annarri mínútu í sjálfum úrslitaleiknum gegn heimamönnum í München. Það dugði þó ekki til því Vestur-Þjóðverjar unnu leikinn, 2:1.

Neeskens var aðeins 22 ára þegar leikurinn fór fram og því vekur athygli að hann hafi verið orðinn vítaskytta í svo sterku liði. „Já, eftir á að hyggja er það örugglega merkilegt. Ég hafði hins vegar byrjað að taka vítin með góðum árangri fyrir Ajax um veturinn og Rinus Michels treysti mér fyrir þessu verkefni með landsliðinu en hann stjórnaði liðinu á HM 1974.“

Fjórum árum síðar í Argentínu endurtók leikurinn sig; Holland tapaði úrslitaleiknum gegn heimaliðinu; 3:1. Þá var Austurríkismaðurinn Ernst Happel tekinn við liðinu. Spurður hvort tapið hafi verið sárara blæs Neeskens í kinnar sér:

„Auðvitað var sárt að tapa báðum þessum leikjum en þegar ég horfi um öxl stendur upp úr að það var frábært afrek að leika tvívegis til úrslita á HM. Við lékum án efa bestu knattspyrnuna, sérstaklega 1974, og unnum hug og hjarta heimsbyggðarinnar. Það er gömul saga og ný að í knattspyrnu vinna bestu liðin ekki alltaf.“

Gúdí er drengur góður

Þegar hann lagði skóna á hilluna sneri Neeskens sér að þjálfun og var meðal annars aðstoðarþjálfari Barcelona frá 2006 til 2008 en þá lék Eiður Smári Guðjohnsen einmitt með liðinu. 

„Já, Eiður Guðjohnsen kom til félagsins á sama tíma og ég; frábær leikmaður og drengur góður. Ábyggilega sá besti sem þið hafið átt. Auk mikilla hæfileika er Gúdí fagmaður fram í fingurgóma og féll strax vel inn í hópinn. Hann spilaði töluvert, sérstaklega fyrsta árið sem hann var hjá Barcelona, en hefði átt skilið að spila enn þá meira. Hafa ber þó í huga að hann var ekki að keppa við neina aumingja um stöðu í liðinu; Iniesta, Deco og þessa kappa.“ 

Ítarlega er rætt við Neeskens í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Neeskens á fleygiferð í úrslitaleiknum gegn Argentínu á HM 1978.
Neeskens á fleygiferð í úrslitaleiknum gegn Argentínu á HM 1978.
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert