Damon Johnson í efstu deild á Spáni

Damon Johnson, landsliðsmaður í körfuknattleik og fyrrverandi leikmaður Íslandsmeistara Keflavíkur, hefur skrifað undir samning um að leika með spænska efstu deildarliðinu Murcia. Damon hefur í vetur leikið með Caceras og staðið sig vel en þar sem liðinu tókst ekki að standa í skilum með laun þá fékk hann sig lausan mála hjá því og tók fegins hendi tilboði Murcia.

Samingur Damons við Murcia er til loka leiktíðar í vor. Mucia er um þessar mundir í neðsta sæti deildarinnar en vonast er til að koma Damons til liðsins megi hressa að einhverju leyti upp á gengi liðsins og það geti ef til vill forðast fall í 1. deild en víst er að til þess að svo megi verða þurfa allir leikmenn liðsins að bíta í skjaldarrendur.

Ekki þarf að fara mörgum orðum um efstu deild spænska körfuknattleiksins, hún er ein sú allra besta í Evrópu og því er það mikill árangur hjká Damon að komast í hóp þeirra leikmanna sem í deildinni leik. Hann hélt utan í fyrrasumar eftir að hafa leikið með Keflavíkingum m.a. í fyrra og orðið Íslands- og bikarmeistari með því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert