Þórður með fallegasta markið

Þórður Guðjónsson leikmaður ÍA skoraði fallegasta markið í fyrsta leik Landsbankadeildarinnar í 3:2-sigri FH gegn ÍA á Akranesi. Þórður skaut boltanum í þverslána og þaðan fór boltinn í markstöngina og rúllaði yfir marklínuna.

Þórður skoraði gegn FH á Akranesi fyrir 15 árum síðan eða árið 1992 í 3:1-sigri ÍA. Arnar Gunnlaugsson skoraði eitt marka ÍA í þeim leik og Bjarki Gunnlaugsson var einnig á meðal markaskorara í ÍA-liðinu. Arnar, Bjarki og Þórður komu allir við sögu í leiknum á laugardag líkt og Guðjón Þórðarson sem var þjálfari Skagaliðsins árið 1992.

Skagamenn hafa nú aðeins náð að sigra FH einu sinni í síðustu 11 viðureignum félaganna í efstu deild. Það var haustið 2005 þegar Sigurður Ragnar Eyjólfsson, núverandi landsliðsþjálfari kvenna, gerði bæði mörk ÍA í 2:1 sigri á FH-ingum, sem þá voru þegar orðnir Íslandsmeistarar eftir 15 sigra í röð.

Sverrir Garðarsson, varnarmaður FH, lék á laugardaginn sinn fyrsta deildaleik síðan 19. september árið 2004 en þá var hann í liði FH sem tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í fyrsta skipti með því að vinna KA, 2:1, á Akureyri. Sverrir hefur síðan átt við þrálát meiðsli að stríða og missti bæði af keppnistímabilinu 2005 og 2006 af þeim sökum en er kominn aftur í byrjunarlið Hafnfirðinga.

FH skoraði síðast þrjú mörk í leik á Akranesi árið 1990. Þá unnu FH-ingar sigur, 3:2, þar sem Hörður Magnússon, núverandi íþróttafréttamaður á Sýn, skoraði tvö mörk og Birgir Skúlason eitt fyrir FH. Fyrir Skagamenn í þeim leik skoruðu Bjarki Pétursson og Sigursteinn Gíslason, núverandi aðstoðarþjálfari KR-inga.

Hólmar Örn Eyjólfsson lék í vörn HK allann leikinn gegn Víkingum í gærkvöldi. Hann er aðeins 16 ára og hefur ekki langt að sækja hæfileikana, sonur Eyjólfs Sverrissonar landsliðsþjálfara.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert