Carl Lewis: Heimskulegt að draga ekki árangur Bolt í efa

Bolt stal senunni í Peking með því að ná í …
Bolt stal senunni í Peking með því að ná í þrenn gullverðlaun og setja þrjú heimsmet. Reuters

Bandaríkjamaðurinn Carl Lewis, margfaldur ólympíu- og heimsmeistari í spretthlaupum og langstökki, dregur í efa að nýkrýndur ólympíumeistari í 100 og 200 metra hlaupi, Jamaíkumaðurinn Usain Bolt, hafi náð árangri sínum með lögmætum hætti.

„Þegar ég er spurður um Usain Bolt segi ég að hann sé mögulega besti frjálsíþróttamaður allra tíma. Það væri hins vegar heimskulegt að draga ekki í efa að einhver geti farið frá því að hlaupa 100 metrana á 10,03 sekúndum eitt árið, í að hlaupa á 9,69 það næsta,“ sagði Lewis í viðtali við Sports Illustrated.

Bolt kom flestum á óvart með því að bæta heimsmetið í bæði 100 og 200 metra hlaupi á Ólympíuleikunum. Hann var þó ekki eini Jamaíkumaðurinn sem náði góðum árangri því karlasveitin, sem Bolt var hluti af, bætti einnig heimsmetið í 4x100 metra hlaupi, og Jamaíka vann þrefaldan sigur í 100 metra hlaupi kvenna. Þjóðin átti einnig fulltrúa í 1. og 3. sæti 200 metra hlaups kvenna.

Lewis segir lyfjaeftirlit á Jamaíka ekki vera nægilega gott og það standi því bandaríska illa samanburð.

„Veronica Campbell-Brown býr í Bandaríkjunum og hefur gengist undir lyfjapróf hér án þess að nokkuð hafi komið upp. Hún vann í 100 metra hlaupinu á HM í fyrra en komst ekki í jamaíska keppnisliðið núna. Ætlar einhver að segja mér að það sé eðlilegt?“ sagði Lewis.

„Ég er stoltur af Bandaríkjunum núna því við höfum besta lyfjaeftirlitið. Íþróttamenn eru kallaðir inn með handahófskenndum hætti og við erum með bestu prófin til að kanna lyfjanotkun. Lönd eins og Jamaíka eru ekki með svo gott kerfi og það geta því liðið margir mánuðir án þess að menn fari í próf.

Enginn er að ásaka Bolt en þegar menn þurfa að hlíta annars konar reglum er ekki hægt að ætlast til þess að þeir njóti sömu virðingar. Hvernig dettur nokkrum manni í hug að það ætti ekki að rannsaka þetta mál ítarlega, sérstaklega í þessari íþrótt,“ sagði Lewis. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert