Sátu í heiðursstúku Hitlers

Jesse Owens í 100 metra hlaupinu í Berlín 1936.
Jesse Owens í 100 metra hlaupinu í Berlín 1936.

Fjölskyldur frjálsíþróttamannanna Jesse Owens og Luz Long fylgdust með langstökkskeppninni á heimsmeistaramótinu í Berlín í dag úr stúkunni þar sem Adolf Hitler sat og fylgdist með langstökkseinvígi þeirra Owens og Long á ólympíuleikunum í Berlín árið 1936. 

Owens stal senunni í Berlín þegar hann vann fern gullverðlaun og gaf þýsku nasistunum um leið langt nef en þeir ætluðu að sýna fram á yfirburði aríska kynstofnsins á ólympíuleikunum.

Langstökkskeppnin árið 1936 þróaðist ekki eins og Hitler og hans menn vildu. Í undankeppninni setti Þjóðverjinn Long ólympíumet en Owens gerði hins vegar ógilt í fyrstu tveimur stökkum sínum. Long kom þá til hans og ráðlagði honum að byrja tilhlaupið aðeins aftar og stökkva upp áður en hann lenti á plankanum. Owens fylgdi þessu ráði og tryggði sér sæti í úrslitunum. Þar stökk hann 8,06 metra, sem var nýtt ólympíumet, en Long varð að sætta sig við silfurverðlaun.

Eftir keppnina gengu þeir Owens og Long saman út af vellinum og með þeim tókst vinátta sem hélst meðan þeir lifðu báðir. Fjölskyldur þeirra hafa síðan haft reglulegt samband og hittust m.a. fyrir heimsmeistaramótið í Berlín nú. 

„Það er frábært að sitja í stúkunni þar sem Hitler var á sínum tíma, láta sér líða vel, fylgjast með íþróttamönnunum og verja tíma með Luzfjölskyldunni og eiginmanni mínum," sagði Marlene Hemphill Dortch, dótturdóttir Owens.

Hún afhenti Bandaríkjamanninum Dwight Phillips gullverðlaunin fyrir langstökk í Berlín í kvöld. Long fjölskyldan afhenti Suður-Afríkumanninum Godfrey Khotso Mokoena silfurverðlaunin.

Bandarísku íþróttamennirnir í Berlín hafa heiðrað minningu Owens á mótinu með því bera upphafsstafina J.O. á keppnisbúningum sínum.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert