Sleðabrautin sögð í lagi

Georgíumenn ganga inní Ólympíuhöllina á setningarhátíðinni í Vancouver í nótt, …
Georgíumenn ganga inní Ólympíuhöllina á setningarhátíðinni í Vancouver í nótt, nokkrum tímum eftir að landi þeirra lést. Reuters

Sleðakeppnin á vetrarólympíuleikunum í Vancouver mun fara fram eftir áætlun í dag, þrátt fyrir banaslysið sem varð í brautinni í gær. Rannsókn leiddi í ljós að mistök Georgíumannsins Nodars Kumaritashvilis hefðu leitt til þessa hörmulega atburðar.

Til öryggis hefur þó verið reistur veggur við síðustu beygju brautarinnar, þar sem Kumaritashvili fór út úr henni. Tvær æfingaferðir verða farnar í dag en keppni í brautinni hefst klukkan eitt í nótt að íslenskum tíma.

Í yfirlýsingu á vef vetrarólympíuleikanna segir: „Eftir hefðbundið rennsli í brautinni fór íþróttamaðurinn seint útúr beygju 15 og brást ekki rétt við til að fara á eðlilegan hátt inní beygju 16. Þó íþróttamaðurinn hefði reynt að leiðrétta þetta missti hann að lokum stjórn á sleðanum með þessum hörmulegu afleiðingum. Tæknimenn náðu að rekja nákvæmlega leið íþróttamannsins og niðurstaða þeirra er sú að ekkert bendi til þess að slysið hafi átt sér stað vegna  galla í brautinni."

CNN sagði frá því áðan að tveir keppendur hefðu meiðst í brautinni við æfingar í vikunni. Meiðsli þeirra væri ekki alvarleg.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert