Þrettán verðlaun til Íslands á fyrsta degi

Anton Sveinn McKee er hér á ferðinni í Liechtenstein en …
Anton Sveinn McKee er hér á ferðinni í Liechtenstein en hann náði í tvenn bronsverðlaun í dag. Ljósmynd/GÞH/sundfréttir.is

Íslenska íþróttafólkið á Smáþjóðaleikunum í Liechtenstein vann til 13 verðlauna á fyrsta eiginlega keppnisdegi leikanna í dag. Lúxemborg hefur verið sigursælast og hlotið 12 gull en Ísland kemur næst með 4 gull.

Hægt er að lesa fréttir af árangri íslenska hópsins í dag með því að smella hér. Upp úr standa gullverðlaun Hrafnhildar Lúthersdóttur, Ragnheiðar Ragnarsdóttur og Eyglóar Óskar Gústafsdóttur í sundi, sem og gullverðlaun Þormóðs Árna Jónssonar í júdói.

Við þessar fréttir má svo bæta að íslenska kvennalandsliðið í blaki tapaði 3:0 fyrir Liechtenstein í sínum fyrsta leik. Leikurinn var þó frekar jafn en Ísland tapaði hrinunum 25:20, 27:25 og 25:21.

Íslenska karlalandsliðið í strandblaki, skipað þeim Einari Sigurðssyni og Róberti Karli Hlöðverssyni, tapaði 2:0 fyrir Liechtenstein í sínum fyrsta leik. Heimamenn unnu 21:16 og 21:12 í hrinunum.

Arnar Sigurðsson og Íris Staub kepptu í tvenndarleik í tennis gegn sigurstranglegu pari frá Lúxemborg og stóðu sig vel. Svo fór þó að Lúxemborgararnir unnu í þremur settum, 2:1. Í einliðaleik karla féll Birkir Gunnarsson úr leik en hann tapaði fyrir Möltubúa í tveimur settum, 6:2 og 6:2. Arnar keppir í einliðaleiknum á morgun.

Guðmundur Helgi Christensen varð í 5. sæti í skotfimi með loftriffli, og í kvennaflokki í sömu grein varð Jórunn Harðardóttir í tíunda og neðsta sæti. Búast má við betri árangri hjá Íslendingum í keppni með skammbyssu á morgun.

Loks tapaði íslenska karlalandsliðið í borðtennis öllum leikjunum í sínum riðli 3:0. Ljóst er að það er skarð fyrir skildi að Guðmundur Stephensen getur ekki spilað vegna anna með félagsliði sínu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert