„Hefur verið mikið ævintýri“

Aníta Hinriksdóttir.
Aníta Hinriksdóttir. Morgunblaðið/Kristinn

„Mér líður mjög vel. Þetta hefur verið mikið ævintýri,“ sagði Aníta Hinriksdóttir, hlaupari úr ÍR, í samtali við Morgunblaðið í gærkvöldi eftir að hún varð í fjórða sæti í 800 m hlaupi á heimsmeistaramótinu í frjálsíþróttum 19 ára og yngri í Barcelona.

Aníta, sem er aðeins 16 ára, kom í mark á 2.03,23 og var aðeins átta hundraðshlutum úr sekúndu frá eigin Íslandsmeti sem hún setti í undanrásunum í fyrradag. Aníta var grátlega nærri verðlaunum því hún missti Manal El Bahraoui frá Marokkó fram úr sér á síðustu 50 metrunum.Bahraoui er tveimur árum eldri en Aníta.

„Ég var svolítið stressuð fyrir hlaupið og hljóp fyrri hringinn full hratt fyrir vikið. Þar af leiðandi var ég aðeins farin að stífna upp í lokin. Ég átti alveg von á að fleiri kæmu fram úr mér á endasprettinum,“ sagði Aníta sem hafði forystu í hlaupinu fyrstu 600 metrana.

„Ég er mjög ánægð með árangurinn og framfarirnar á þessu móti og stefni á að taka þátt í mótinu á nýjan leik eftir tvö ár og þá reynslunni ríkari,“ sagði Aníta Hinriksdóttir.

Nánar er rætt við Anítu og annan þjálfara hennar í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert