Ásgeir Íslandsmeistari með loftskammbyssu

Ásgeir Sigurgeirsson fyrir miðju með þeim Thomasi Viderö og Karli …
Ásgeir Sigurgeirsson fyrir miðju með þeim Thomasi Viderö og Karli Kristinssyni, verðlaunahöfum í loftskammbyssu. Ljósmynd/STÍ

Ásgeir Sigurgeirsson, Ólympíufari, varð í dag Íslandsmeistari í skotfimi með loftskammbyssu en Íslandsmótið fór fram í Egilshöll.

Ásgeir, sem keppir fyrir Skotfélag Reykjavíkur, hlaut 575 stig en í öðru varð Thomas Viderö úr Skotfélagi Kópavogs með 550 stig. Karl Kristinsson úr Skotfélagi Reykjavíkur varð þriðji með 540 stig. Oddur E. Arnbergsson varð Íslandsmeistari unglinga með 493 stig.

Í kvennaflokki varð Jórunn Harðardóttir úr Skotfélagi Reykjavíkur Íslandsmeistari með 370 stig, Kristína Sigurðardóttir. einnig úr Skotfélagi Reykjavíkur. varð önnur með 349 stig og Bára Einarsdóttir úr Skotfélagi Kópavogs varð þriðja með 347 stig.

A-sveit Skotfélags Reykjavíkur varð Íslandsmeistari í liðakeppni karla með Ásgeir Sigurgeirsson, Karl Kristinsson og Guðmund Kr. Gíslason innanborðs með 1.652 stig. Önnur varð B-sveit Skotfélags Reykjavíkur með 1.583 stig og A-sveit Skotfélags Kópavogs varð þriðja með 1.579 stig.

Í keppni karla með loftriffli varð Guðmundur Helgi Christensen Íslandsmeistari með 592,5 stig, Logi Benediktsson úr Skotfélagi Kópavogs varð annar með 563,9 stig og Þorsteinn B. Bjarnarson úr Skotfélagi Reykjavíkur varð þriðji með 514,2 stig.

Í keppni kvenna með loftriffli varð Íris Eva Einarsdóttir Íslandsmeistari með 388,5 stig og Jórunn Harðardóttir önnur með 387,2 stig. Þær eru báðar úr Skotfélagi Reykjavíkur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert