Þrenn gullverðlaun og tvö mótsmet í sundinu

Eygló Ósk Gústafsdóttir fékk gull og silfur í dag.
Eygló Ósk Gústafsdóttir fékk gull og silfur í dag. mbl.is/Ómar

Sunddrottningarnar Eygló Ósk Gústafsdóttir úr Ægi og Hrafnhildur Lúthersdóttir úr SH settu hvor um sig mótsmet á fyrsta keppnisdegi í sundi á Smáþjóðaleikunum í Lúxemborg í dag. Alls vann íslenska sundfólkið til 10 verðlauna í dag.

Eygló kom fyrst í mark í 200 metra baksundi á 2:15,21 mínútum en næst á eftir henni varð systir hennar, Jóhanna Gerða Gústafsdóttir, á 2:18,04.

Hrafnhildur kom fyrst í mark í 200 metra fjórsundi á 2:17,27 mínútum en Eygló Ósk varð þar í 2. sæti á 2:20,99 mínútum.

Anton Sveinn synti til sigurs

Anton Sveinn McKee úr Ægi varð þriðji gullverðlaunahafinn þegar hann vann sigur í 200 metra fjórsundi karla á 2:05,94 mínútum, 51/100 úr sekúndu á undan næsta manni.

Ísland fékk tvenn verðlaun í 200 metra baksundi karla en þar kom Kristinn Þórarinsson annar í mark á 2:09,34 mínútum, og Kolbeinn Hrafnkelsson þriðji á 2:10,64. Heimamaðurinn Jean-Francois Schneiders setti mótsmet á 2:01,71 mínútum.

Inga Elín Cryer varð í 2. sæti í 200 metra flugsundi á 2:21,45 mínútum, um það bil 5 og hálfri sekúndu á eftir Juliu Hassler frá Liechtenstein.

Daniel Hannes Pálsson varð einnig í 2. sæti í 200 metra flugsundi karla, á 2:06,61 mínútum, eða 1,17 sekúndu á eftir Christophe Meier frá Liechtenstein.

Ingibjörg Kristín Jónsdóttir varð í 2. sæti í 100 metra skriðsundi á 57,39 sekúndum eða 1,20 sekúndu á eftir Juliu Meynen frá Lúxemborg. Karen Sif Vilhjálmsdóttir varð í 4. sæti á 58,11 sekúndum.

Davíð Hildiberg Aðalsteinsson varð í 5. sæti í 100 metra skriðsundi karla á 52,22 sekúndum, 61/100 úr sekúndu frá verðlaunasæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert