Eygló í 20. sæti á HM - Hrafnhildur nærri meti

Hrafnhildur Lúthersdóttir og Eygló Ósk Gústafsdóttir syntu báðar í dag.
Hrafnhildur Lúthersdóttir og Eygló Ósk Gústafsdóttir syntu báðar í dag. mbl.is/Golli

Eygló Ósk Gústafsdóttir úr Ægi varð í 20. sæti í 100 metra baksundi á HM í Barcelona sem nú stendur yfir. Hún synti á 1:01,74 mínútu. Hrafnhildur Lúthersdóttir úr SH varð í 30. sæti í 100 metra bringusundi.

Íslandsmet Eyglóar í baksundinu hefði dugað henni vel til að komast í úrslitin en til að ná þangað hefði hún þurft að synda á 1:01,25 mínútu. Metið hennar er 1:01,08. Eygló var með 22. besta skráða tímann fyrir sundið.

Hrafnhildur synti bringusundið á 1:09,75 mínútu og var 27/100 úr sekúndu frá Íslandsmeti sínu frá því í apríl. Hún hefði þurft að synda á 1:08,36 til að komast í úrslitin.

Eygló hafði áður keppt í 200 metra fjórsundi í gær. Hún keppir svo í 200 metra skriðsundi á morgun og þá keppir Anton Sveinn McKee í 800 metra skriðsundi. Anton setti Íslandsmet í 400 metra skriðsundinu í gær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert