Mokað ef snjórinn fer ekki í nótt

Nú þegar spennan magnast fyrir landsleik Íslands og Kýpur í knattspyrnu á Laugardalsvelli á föstudag hefur líklega farið um einhverja í morgun þegar þeir sáu að snjó hafði kyngt niður. Völlurinn var á kafi snjó í dag og æfing landsliðsins var því færð yfir í Fífuna í Kópavogi í stað þess að fara fram á vellinum.

Kristinn Jóhannsson, vallarstjóri á Laugardalsvelli, hefur þó ekki miklar áhyggjur af ástandinu enn sem komið er en mokað var af hluta vallarins í dag en grasið lítur að hans sögn vel út og ekkert frost er í jörðu. Ef snjórinn verður ekki farinn á morgun eins og útlit er fyrir verður mokað af vellinum svo íslenska landsliðið geti æft þar en landslið Kýpur á svo líka rétt á æfingu á vellinum á fimmtudag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert