Tíu efstu í kjörinu á íþróttamanni ársins

Jón Margeir Sverrisson varð þriðji, Ásdís Hjálmsdóttir önnur og Aron …
Jón Margeir Sverrisson varð þriðji, Ásdís Hjálmsdóttir önnur og Aron Pálmarsson fyrstur í kjörinu 2012. mbl.is/Ómar

Samtök íþróttafréttamanna kjósa íþróttamann ársins í 58. skipti í ár og kjörinu verður lýst laugardagskvöldið 28. desember. Nú hefur verið opinberað hvaða tíu íþróttamenn urðu í efstu sætunum í kjörinu að þessu sinni.

 Í Samtökum íþróttafréttamanna eru 26 meðlimir um þessar mundir og 25 þeirra nýttu atkvæðisrétt sinn. Þeir eru frá Morgunblaðinu, Fréttablaðinu, RÚV, 365 miðlum, Skinfaxa og Fótbolta. net. Aðeins þeir sem eru í fullu starfi sem íþróttafréttamenn eru gjaldgengir í samtökunum og í kjörinu.

Nú liggur fyrir hverjir höfnuðu í tíu efstu sætunum og hér fyrir neðan má sjá hvaða íþróttamenn það eru, í stafrófsröð:

Alfreð Finnbogason, knattspyrnumaður hjá Heerenveen
Aníta Hinriksdóttir, frjálsíþróttakona úr ÍR
Aron Pálmarsson, handknattleiksmaður hjá Kiel
Auðunn Jónsson, kraftlyftingamaður úr Breiðabliki
Guðjón Valur Sigurðsson, handknattleiksmaður hjá Kiel
Gylfi Þór Sigurðsson, knattspyrnumaður hjá Tottenham
Helgi Sveinsson, frjálsíþróttamaður úr Ármanni
Jón Arnór Stefánsson, körfuknattleiksmaður hjá Zaragoza
Kolbeinn Sigþórsson, knattspyrnumaður hjá Ajax
Sara Björk Gunnarsdóttir, knattspyrnukona hjá Malmö

Samtök íþróttafréttamanna hafa útvíkkað kjörið og munu nú í annað sinn útnefna og heiðra lið ársins, sem og þjálfara ársins. Öll íslensk keppnislið, hvort sem það eru landslið eða félagslið, koma til greina í valinu á liði ársins 2013 og allir íslenskir þjálfarar, innanlands sem utan, geta hreppt titilinn þjálfari ársins 2013. Í fyrra var Alfreð Gíslason kjörinn þjálfari ársins og hópfimleikalið Gerplu var kjörið lið ársins 2012.

Þessir þjálfarar urðu efstir í kjörinu í ár, í stafrófsröð, og einn þeirra verður útnefndur þjálfari ársins 28. desember:

Alfreð Gíslason, handknattleiksþjálfari hjá Kiel
Gunnar Páll Jóakimsson, frjálsíþróttaþjálfari hjá ÍR
Sigurður Ragnar Eyjólfsson, þjálfari kvennalandsliðsins í knattspyrnu

Þessi lið urðu efst í kjörinu, í stafrófsröð, og eitt þeirra verður útnefnt lið ársins 28. desember:

Knattspyrnulandslið karla
Knattspyrnulandslið kvenna
Kvennalið Gerplu í hópfimleikum






mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert