Glímudrottningin ekki með

Pétur Eyþórsson og Marín Laufey Davíðsdóttir urðu Glímukóngur og Glímudrottning …
Pétur Eyþórsson og Marín Laufey Davíðsdóttir urðu Glímukóngur og Glímudrottning Íslands 2011, 2012 og 2013. Ljósmynd/Benedikt Hermannsson

Marín Laufey Davíðsdóttir sem hreppt hefur titilinn Glímudrottning Íslands undanfarin þrjú ár verður ekki meðal keppenda þegar Freyjuglíman verður háð um helgina. Keppnin fer að þessu sinni fram í íþróttahúsi Kennaraháskólans á laugardag.

Sex keppa í kvennaflokki, meðal annars Sólveig Rós Jóhannsdóttir, sem vann Freyjumenið, verðlaunagrip kvenna í Íslandsglímunni 2004 og 2005.

Í Íslandsglímunni eru líka sex keppendur skráðir til leiks, meðal annars Pétur Eyþórsson sem unnið hefur Grettisbeltið síðustu fimm ár og átta sinnum alls. Pétur er þegar orðinn næst sigursælasti glímumaður Íslandsglímunnar frá upphafi. Hann á þó enn nokkuð í land að skáka Ármanni J. Lárussyni sem varð Glímukóngur Íslands 15 sinnum á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar, þar af 14 sinnum í röð, 1954-1967.

Fyrsta Íslandsglíman fór fram árið 1906 og hefur verið haldin síðan ef frá eru talin árin sem fyrri heimsstyrjöldin stóð yfir 1914-1918, en þá var gert hlé.

Íslandsglíman hefst klukkan 15.30 á laugardag og glíma allir við alla í báðum kynjaflokkum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert