Björk Íslandsmeistari og setti met

Björk Óðinsdóttir setti Íslandsmet í jafnhendingu í -63kg flokki og …
Björk Óðinsdóttir setti Íslandsmet í jafnhendingu í -63kg flokki og varð Íslandsmeistari kvenna í opnum flokki á Íslandsmótinu í Ólympískum lyftingum í dag. Ljósmynd/CFRvk

Björk Óðinsdóttir úr Kraftlyftingafélagi Akureyrar varð í dag Íslandsmeistari í opnum flokki kvenna í Ólympískum lyftingum, en Íslandsmótið í lyftingum stendur nú yfir í húsakynnum Crossfit Reykjavík í Faxafeni.

Björk keppti í -63kg þyngdarflokki og tók forystu eftir fyrri hlutann þegar hún snaraði 75kg í þriðju og síðustu tilraun. 

Keppnin milli Bjarkar, Önnu Huldu Ólafsdóttur og Þuríðar Erlu Helgadóttur var hörð í -63kg flokknum og Anna Hulda gaf tóninn þegar hún bætti eigið Íslandsmet í jafnhendingu frá því á Evrópumótinu í Ísrael fyrir tæpum hálfum mánuði. Anna Hulda jafhenti í dag 95kg.

Íslandsmet Önnu Huldu stóð þó aðeins í tvær mínútur því Björk tók sig til að jafnhenti 96kg í sinni annarri lyftu og setti um leið Íslandsmet í jafnhendingu í -63kg þyngdarflokki kvenna. Björk reyndi svo við 100kg í þriðju og síðustu lyftunni og náði þeim upp fyrir haus. Hins vegar dæmdu dómararnir lyftuna ógilda.

Björk lyfti samanlagt 171kg í snörun og jafnhendingu og varð Íslandsmeistari bæði í -63kg flokknum og í opnum flokki kvenna. Í opnum flokki kvenna er árangur keppenda reiknaður út eftir svokölluðu Sinclair kerfi þar sem keppendur eiga jafna möguleika í að vinna óháð þyngd. Þar hafði Björk sigur og er því Íslandsmeistari í opnum flokki kvenna í Ólympískum lyftingum 2014.

Keppni í karlaflokki stendur enn yfir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert