Gísli Íslandsmeistari í enn eitt skiptið

Gísli Kristjánsson Íslandsmeistari í opnum flokki karla á Íslandsmótinu í …
Gísli Kristjánsson Íslandsmeistari í opnum flokki karla á Íslandsmótinu í Ólympískum lyftingum 2014. Ljósmynd/CFRvk

Gísli Kristjánsson úr Lyftingafélagi Reykjavíkur varð í dag Íslandsmeistari karla í opnum flokki þegar Íslandsmótið í Ólympískum lyftingum var haldið í húsakynnum Crossfit Reykjavík í Faxafeni.

Gísli sem hefur margoft orðið Íslandsmeistari í opnum flokki keppti í +105kg flokki karla í dag. Hann snaraði 150kg og jafnhenti 165kg og lyfti því samanlagt 315kg. Hann fékk flest stig allra miðað við Sinclair útreikninga, en sú reikniformúla finnur út hvaða keppandi lyftir mestri þyngd í það heila miðað við eigin líkamsþyngd.

Nokkur Íslandsmet voru slegin í karlaflokkum í dag. Björgvin Karl Guðmundsson, LFR setti þrjú Íslandsmet í -85kg flokki. Hann snaraði 120kg, jafnhenti 145kg og tók samanlagt 265kg.

Sigurður Bjarki Einarsson, FH setti tvö Íslandsmet þegar hann jafnhenti 147 kg og tók þá samanlagt 264 kg sem er líka Íslandsmet í -94kg flokki.

Þá setti Hinrik Ingi Óskarsson LFR Íslandsmet í -85 kg flokki U20 ára þegar hann snaraði 101 kg. Jafnframt setti Guðmundur Högni Hilmarsson Ármanni Íslandsmet -85 kg flokki, U20 ára þegar hann jafnhenti 128 kg og náði samanlögðu 227 kg. 

Í fyrsta sinn á þessu Íslandsmóti var veittur liðabikar fyrir það lið sem fékk flest samanlög stig. Lyftingafélag Reykjavíkur varð Íslandsmeistari liða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert