Phelps byrjaði vel á fyrsta móti

Michael Phelps ræðir við fréttamenn í Mesa eftir sundið í …
Michael Phelps ræðir við fréttamenn í Mesa eftir sundið í dag. AFP

Michael Phelps, sigursælasti keppandi á Ólympíuleikum frá upphafi, sneri aftur í sundlaugina í dag með góðum árangri þegar hann náði besta tímanum í undanrásum í 100 metra flugsundi á Grand Prix móti í Mesa, útborg Phoenix í Arizóna.

Phelps hætti keppni eftir Ólympíuleikana í London 2012 þar sem hann fékk fern gullverðlaun og tvenn silfurverðlaun, og var þar með samtals kominn með 18 gull og 4 silfur á ÓL. Hann sagðist hafa ákveðið að koma sér í gott form á ný þar sem hann var ósáttur við að hafa þyngst mikið eftir að hann hætti keppni.

Phelps fékk tímann 52,84 sekúndur og var nokkuð frá heimsmetinu sínu sem er fimm ára gamalt, 49,82 sekúndur, en náði auðveldlega lágmarkinu fyrir bandaríska meistaramótið sem fram fer í ágúst. Þar með getur hann keppt um þátttökurétt á heimsmeistaramótinu í Rússlandi á næsta ári.

„Ég var bara ágætlega yfirvegaður en var fyrst og fremst spenntur fyrir því að komast af stað og keppa á ný. Það er gaman að hafa komist í gegnum fyrsta sundið," sagði hinn 28 ára gamli Phelps við fréttamenn eftir sundið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert