Aníta á fjórða besta tímann

Aníta Hinriksdóttir mun líklega berjast um verðlaun í Eugene í …
Aníta Hinriksdóttir mun líklega berjast um verðlaun í Eugene í 800 metra hlaupi kvenna. mbl.is/Styrmir Kári

Aníta Hinriksdóttir hefur keppni í kvöld í heimsmeistaramóti unglinga 19 ára og yngri í frjálsíþróttum í Eugene, Oregon í Bandaríkjunum þegar hún keppir í undanrásum 800 metra hlaups kvenna klukkan 19.15 að íslenskum tíma.

Aníta er skráð inn með fjórða besta tímann í ár af keppendum mótsins með 2:01,81 mín. Besta tímann í ár á Kúbverjinn Sahily Diago, 1:57,74 mín. Zeyituna Mohammed frá Eþíópíu hefur svo hlaupið á 2:01,55 mín. í ár og Ástralinn Georgia Wassall 2:01,78 mín.

Ásgeir Már Hauksson tók saman árangur keppenda á HM í Eugene í þeim greinum þar sem Íslendingar keppa og setur árangur þeirra í ár í samhengi við árangur annarra keppenda. Sleggjukastarinn Hilmar Örn Jónsson er skráður inn á HM með tíunda besta árangur ársins af þeim keppendum sem þar verða með 75,65 metra.

Þá er spjótkastarinn Sindri Hrafn Guðmundsson settur með tólfta besta árangurinn í ár af keppendum í spjótkasti karla, 72,45 metra. Sindri kastaði þó 77,28 metra á Meistaramóti Íslands í Kaplakrika fyrr í þessum mánuði og sá árangur toppar skráðan árangur allra hinna spjótkastaranna á HM í Eugene miðað við árangur þeirra í ár.

Jóhann Björn Sigurbjörnsson raðast svo í 52. sæti og Kolbeinn Höður Gunnarsson í 53. sæti yfir bestu tíma í ár í 200 metra hlaupi karla af þeim sem keppa á HM.

Miðað við þetta er ljóst að Aníta, Hilmar og Sindri eiga öll að geta barist um verðlaun á HM unglinga í Eugene.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert