Hilmar Örn: Það var allt eða ekkert

„Get ekki verið fúll,“ sagði Hilmar Örn Jónsson eftir úrslitin.
„Get ekki verið fúll,“ sagði Hilmar Örn Jónsson eftir úrslitin. Eva Björk Ægisdóttir

Sleggjukastarinn Hilmar Örn Jónsson var svekktur en sáttur þegar blaðamaður sló á þráðinn til hans á heimsmeistaramóti ungmenna í Eugene í Bandaríkjunum nú rétt í þessu. Hilmar var að keppa í úrslitum í greininni og endaði þar í tólfta sæti með öll köst sín ógild í netið.

„Þetta var allt eða ekkert. Ég stefndi í bronsið en það fór sem fór og ég ætlaði mér kannski of mikið,“ sagði Hilmar í samtali við mbl.is, en hann hengdi ekki haus þrátt fyrir að svona hefði farið.

„Ég ætla ekki að gera það. Aðalmarkmiðinu var náð, það var að komast í úrslitin svo ég get ekki verið fúll. Ég lagði allt undir þar en það gekk ekki eftir, en þetta er virkilega góð reynsla fyrir mig og nauðsynlegt að vera undir almennilegri pressu og læra af því,“ sagði Hilmar, en hann kastaði 76,03 metra í undanúrslitum á fimmtudag sem er hans næstbesti árangur með 6 kg sleggju.

Ashraf Amgad Elseify frá Katar varð heimsmeistari, hann kastaði 84,71 metra en hann er heimsmethafi í þessum aldursflokki. „Það er mjög gaman að vera að kasta svipað langt og þeir í upphitun og slíkt þó það hafi klikkað í keppninni. Ég á alveg að eiga í þessa kalla, þeir eru kannski vanari pressunni,“ sagði Hilmar.

Næst á dagskrá hjá honum er Norðurlandamótið sem fer fram um miðjan ágúst. „Það er markmiðið að kasta langt þar, virkilega langt. En í heildina er ég mjög ánægður með þessa ferð hingað, íslenska liðið er að standa sig virkilega vel og ferðin verið frábær. Það hefði verið gaman að klára þetta með stæl en svona gerist,“ sagði Hilmar Örn Jónsson brattur í samtali við mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert