Hrafnhildur af öryggi í undanúrslit

Hrafnhildur Lúthersdóttir og Ingibjörg Kristín Jónsdóttir, báðar úr SH, eru …
Hrafnhildur Lúthersdóttir og Ingibjörg Kristín Jónsdóttir, báðar úr SH, eru fulltrúar Íslands á EM. Ljósmynd/Facebook

Hrafnhildur Lúthersdóttir úr SH synti sig inn í undanúrslit í annað sinn á Evrópumeistaramótinu í 50 metra laug sem stendur yfir í Berlín þegar hún kom í mark á 2:28,07 mínútum í undanrásum í 200 metra bringusundi í morgun.

Hrafnhildur varð í 4. sæti í sínum riðli en fimm fyrstu í hennar riðli komust í undanúrslitin. Samtals átti hún 10. besta tímann af þeim 33 keppendum sem syntu í undanrásunum. Íslandsmet Hrafnhildar í greininni er 2:27,11 mínútur.

Undanúrslitin fara fram síðar í dag og eiga að hefjast kl. 17.14.

Hrafnhildur hafði áður komist í undanúrslit í 100 metra bringusundi þar sem hún setti Íslandsmet og var annar varamaður inn í úrslitin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert