Meistararnir lögðu nýliðana

Nýliðar Esju höfðu ekki erindi sem erfiði í kvöld.
Nýliðar Esju höfðu ekki erindi sem erfiði í kvöld. mbl.is/Ómar

UMFK Esja tók á móti Skautafélagi Akureyrar í Skautahöllinni í Laugardal á Íslandsmóti karla í íshokkí í kvöld. Leiknum lauk með sigri SA sem gerðu átta mörk gegn þremur mörkum UMFK Esju.

Esjumenn ákváðu að hafa skemmtilega tilbreytingu því fyrir leik kom karlakórinn Esja og söng þjóðsönginn. SA-menn voru sókndjarfari strax frá byrjun en Sigurður Reynisson kom þeim yfir á 6. Mínútu leiksins en það var jafnfram eina markið í lotunni og allt útlit fyrir spennandi leik. Önnur lotan var hinsvegar eign SA-manna og þeir röðuðu inn fimm mörkum í lotunni og Esjumenn í erfiðum málum enda staðan 6:0 gestunum í hag.

Esjumenn náðu aðeins að svara fyrir sig í síðustu lotunni og greinilega aðeins dregið af gestunum. Richard Tathinen þjálfari SA liðsins var ánægður með sigurinn. „Við gátum spilað okkar leik einsog við erum búnir að vera að æfa. Þeir eru með hættulega einstaklinga og við náðum að halda þeim frá hættulegum svæðum í sókninni. Við náðum líka að loka hlutlausa svæðinu með því að vera þéttir á miðjunni og lásum líka sendingar þeirra vel“ sagði Richard ánægður með lífið.

Mörk/stoðsendingar UMFK Esju:

Egill Þormóðsson 1/1
Einar Sveinn Guðnason 1/0
Gunnar Guðmundsson 1/0
Ólafur Hrafn Björnsson 0/2

Refsingar UMFK Esja: 12 mínútur.

Mörk/stoðsendingar SA:

Sigurður Reynisson 3/1
Ben DiMarco 3/1
Jóhann Már Leifsson 1/2
Einar Valentine 1/0
Ingvar Þór Jónsson 0/4
Helgi Gunnlaugsson 0/1
Ingþór Árnason 0/1
Ingólfur Tryggvi Elíasson 0/1
Jón B. Gíslason 0/1

Refsingar SA: 6 mínútur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert