SR-ingar lögðu Esju

Frá viðureign SR og Esju fyrr á keppnistímabilinu.
Frá viðureign SR og Esju fyrr á keppnistímabilinu. Ómar Óskarsson

Skautafélag Reykjavíkur lagði UMFK Esju að velli á Íslandsmóti karla í íshokkí í kvöld með 5 mörkum gegn fjórum. Með sigrinum lyftu SR-ingar sér upp fyrir Björninn sem var í öðru sæti deildarinnar en Björninn á leik til góða.

Síðast þegar liðin mættust unnu SR-ingar örugga 4:1 sigur og lengi vel leit út fyrir að svipað yrði upp á teningnum í kvöld því eftir tuttugu og sex mínútna leik voru SR-ingar komnir í þá kunnuglegu stöðu. Esju menn náðu hinsvegar að minnka fyrir þremur mínútum fyrir lotulok. SR-ingar náðu hinsvegar að refsa á síðustu sekúndum lotunnar, þegar tveir Esjuleikmenn tóku út refsingu og staðan því 5:2 að lokinni annarri lotu.

Lengi vel leit út fyrir að þetta yrðu úrslit leiksins en á síðustu tveimur mínútunum náðu leikmenn Esju að minnka muninn í eitt mark. Lokasekúndurnar voru því æsispennandi en SR-ingar náðu að halda fengnum hlut.

Gunnlaugur Björnsson þjálfari SR-inga var kátur með að hafa náð að landa sigri aftur gegn Esju. „Við spiluðum vel sem heild en refsimínúturnar fóru svolítið með þetta. Við vorum orðnir þreyttir í endann og þá misstum við einbeitinguna,” sagði Gunnlaugur.

Næsti leikur SR-inga er eftir viku en þá mætir liðið Skautafélagi Akureyrar. „Næsti leikur verður pottþétt mjög erfiður og mínir menn þurfa að vera vel einbeittir í honum því Akureyringarnir eru með gríðarlega reynt og vel skipulagt lið,” sagði Gunnlaugur Björnsson, þjálfari SR, kampakátur í leikslok í kvöld. 

Mörk/stoðsendingar UMFK Esja:

Egill Þormóðsson 1/2
Ólafur Hrafn Björnsson 1/1
Kole Bryce 1/0
Pétur Maack 1/0
Andri Þór Guðlaugsson 0/1

Refsingar UMFK Esju: 12 mínútur

Mörk/stoðsendingar SR:

Robbie Sigurðsson 2/1
Tómas Tjörvi Ómarsson 1/1

Jón Andri Óskarsson 1/0
Daníel Steinþór Magnússon 1/0
Victor Andersson 0/1
Viktor Örn Svavarsson 0/1
Miloslav Racansky 0/1

Refsingar SR: 16 mínútur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert