Stórt bikarmót í listhlaupi á skautum

Þuríður Björg Björgvinsdóttir sigraði í unglingaflokki A á haustmótinu.
Þuríður Björg Björgvinsdóttir sigraði í unglingaflokki A á haustmótinu. Ljósmynd/Hafsteinn Snær Þorsteinsson

Bikarmót Skautasambands Íslands í listhlaupi á skautum fer fram í Skautahöllinni í Laugardalnum um helgina.  Búist er við metþátttöku, en 83 keppendur eru skráðir á mótið.  Keppt er í öllum aldursflokkum í A- og B-flokkum.

Í fréttatilkynningu frá Skautasambandinu, ÍSS, er sagt að búist sé við mjög harðri keppni í efstu flokkum, sérstaklega í unglingaflokki A.  Ellefu skautarar hafa í vetur rétt til þess að keppa í unglingaflokki A og hefur flokkurinn aldrei áður verið jafn stór og öflugur.  Þar er m.a. barist um sæti í landsliði Íslands á Norðurlandamóti sem fram fer í Noregi í febrúar næstkomandi. 

Fulltrúar ÍSS á Junior Grand Prix mótaröð Alþjóðaskautasambandsins í september og október síðastliðnum, Agnes Dís Brynjarsdóttir og Vala Rún B. Magnúsdóttir, munu mæta gallharðar til keppni á bikarmótinu til að tryggja sér áframhaldandi sæti í landsliðinu, en Þuríður Björg Björgvinsdóttir, sem sigraði á haustmóti ÍSS og skilaði inn viðmiðum í landslið, mun örugglega veita þeim harða keppni ásamt þeim Elísabetu Ingibjörgu Sævarsdóttur, Kristínu Valdísi Örnólfsdóttur og Evu Dögg Sæmundsdóttur, sem allar komu sterkar inn á sínu fyrsta móti í Unglingaflokki A á Haustmótinu. 

Mótið hefst klukkan 7.45 báða morgnana, með keppni hjá yngstu iðkendunum, 8 ára og yngri, og lýkur hvorn dag fyrir sig með keppni í unglingaflokki A en sú keppni hefst kl. 13.40 á morgun og 11.40 á sunnudaginn.

Emilía Rós Ómarsdóttir sigraði í stúlknaflokki A á haustmótinu.
Emilía Rós Ómarsdóttir sigraði í stúlknaflokki A á haustmótinu. Ljósmynd/Hafsteinn Snær Þorsteinsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert