Djokovic stöðvaði sigurgöngu Murrays

Novak Djokovic einbeittur í leiknum við Andy Murray í gærkvöldi.
Novak Djokovic einbeittur í leiknum við Andy Murray í gærkvöldi. AFP

Sigurgöngu breska tenniskappans Andy Murray lauk í gærkvöldi þegar efsti maður heimslistans, Novak Djokovic, lagði hann að velli í átta liða úrslitum Parísar-meistaramótsins í tennis. Djokovic mun mæta Kei Nishikori frá Japan í undanúrslitum mótsins.

Murray hafði unnið ellefu leiki í röð þangað til Djokovic hafði betur í gærkvöldi í tveimur settum, 7:5 og 6:2, sem þýðir að Murray tapaði öllum fjórum viðureignum sínum við Djokovic á árinu. Murray hefur hins vegar verið á miklu skriði undanfarið, unnið þrjá titla á síðustu sex vikum.

Gamla kempan Roger Federer sem kominn er í annað sæti heimslistans, fast á hæla Djokovic og er farinn að gera atlögu að efsta sætinu á ný, tapaði sömuleiðis í átta liða úrslitum mótsins í gær þegar Milos Raonic hafði betur.

Síðasta mót ársins fer fram í London um næstu helgi þar sem flestir bestu tennisleikarar heims verða á meðal þátttakenda, en Federer lét hafa eftir sér að þrátt fyrir ósigurinn í gær sé hann ekki búinn að gefa efsta sæti heimslistans upp á bátinn. Nú hefði hann einungis meiri tíma til undirbúnings fyrir mótið í London.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert