Mætti snemma til Úlfanna

Björn Bergmann Sigurðarson.
Björn Bergmann Sigurðarson. Ljósmynd/heimasíða Wolves

Knattspyrnumaðurinn Björn Bergmann Sigurðarson er kominn aftur heim til Wolves eftir lánsdvölina hjá Molde í Noregi og hefur æft með liðinu að undanförnu þrátt fyrir að lánstíminn hafi verið til áramóta.

Tímabilinu í Noregi lauk í nóvember, þar sem Björn varð tvöfaldur meistari með Molde, en hann vildi mæta sem fyrst til Wolves og halda áfram æfingum eftir að hafa glímt við meiðsli stóran hluta tímabilsins.

Björn mun geta leikið með Wolves í ensku B-deildinni frá áramótum. Hann lék síðast leik fyrir liðið skömmu fyrir jól á síðasta ári, en næsti leikur framherjans gæti orðið gegn Fulham í þriðju umferð bikarkeppninnar 3. janúar.

Björn á eitt og hálft ár eftir af samningi sínum við Úlfana. Kenny Jackett, knattspyrnustjóri liðsins, hefur sagt að hann sé opinn fyrir því að gefa Birni tækifæri hafi Skagamaðurinn á annað borð áhuga á að reyna að sanna sig í deildinni. Björn hefur skorað sjö mörk í 55 leikjum fyrir Wolves síðan hann kom fyrst frá Lilleström sumarið 2012.

„Við sjáum til. Ég er alltaf með opinn huga. Mér fannst hann ekki gera nóg á síðasta ári. Það fannst mér ekki og hvað Björn varðaði þá vildi hann fara aftur heim [til Noregs] og fannst fótboltinn þar henta sér betur,“ sagði Jackett.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert